Davíð á "óreiðumannalista" Time

Tímaritið Time birti í dag lista yfir þá 25 menn sem það telur að beri ábyrgð á heimskreppunni. Davíð Oddson er á þessum lista. Á vefútgáfu sinni ritar Time:

“Over the two decades in which David Oddsson held public office, first as Iceland's Prime Minister and then as the governor of the central bank, he ushered in a new era of free market economics, privatizing Iceland's three main banks, floating its currency and ushering in a golden age of entrepreneurship. Whoops. Iceland's economy instead is a textbook case of macroeconomic meltdown. The three banks, which were massively leveraged, are in receivership, GDP could drop by 10% this year, and the IMF has stepped in after the currency has lost more than half of its value. Nice experiment.

Svo mörg voru þau orð! Þekktir hagfræðingar hafa sagt þá skoðun sína að Davíð Oddson eigi að víkja úr Seðlabankanum. Við skulum líta á nokkrar umsagnir þeirra:

Robert Wade, hagfræðiprófessor við London School of Economics, segir bráðnauðsynlegt að skipta um seðlabankastjóra hið fyrsta til að senda þau skilaboð til umheimsins að Íslandi sé alvara með því að ætla að koma sér aftur á réttan kjöl. Í augum þeirra sem standi utan landsteinanna sé Davíð Oddsson sá einstaklingur sem langsamlega mesta ábyrgð beri á ástandinu á Íslandi í dag. Hann hafi hannað kerfið sem nú hafi fallið og hafi strax eftir hrunið "gerst sekur um dómgreindarleysi sem væri hlægilegt ef það væri ekki svo alvarlegt".

Lars Christensen, yfirmaður greiningardeildar Danske Bank, segir það "neyðarlegt" af Davíð Oddssyni að neita að víkja úr stóli seðlabankastjóra. "Auðvitað á ríkisstjórn ekki að skipta sér af málefnum Seðlabankans, en í ljósi þeirra mistaka sem gerð hafa verið, hefði bankastjórnin þegar átt að vera búin að segja af sér," sagði Christensen í samtali við fréttastofuna Bloomberg.

Í sömu frétt segir Thomas Haugaard, hagfræðingur Svenska Handelsbanken "mjög skynsamlegt að hreinsa út úr kerfinu".

"Í ljósi þess sem gerst hefur er ég gáttaður á því að Davíð Oddsson hafi ekki vikið úr starfi fyrir löngu," segir Carsten Valgreen, ráðgjafi og fyrrverandi aðalhagfræðingur Danske Bank. "Hann er greinilega ekki að hugsa um hag þjóðarinnar." Valgreen segir sorglegt að á tímum sem þessum hafi valdamesta fólk landsins misst sig í skaðlegt pólitískt argaþras.

Sjálfstæðismenn hafa varið Davíð Oddson með kjafti og klóm varðandi kröfuna um að hann víki úr stóli Seðlabankastjóra. Sjálfur sér Davíð ekki ástæðu til að víkja. Hann hafi ekkert gert af sér og hann sé vanur að ljúka því sem hann taki að sér. Nú er það spurningin hverju á Davíð Oddson eftir að ljúka? Því verður hann að svara sjálfur.

Björn Bjarnason fyrrverandi dómsmálaráðherra og einkavinur Davíðs sá ástæðu til að biðja utanríkisráðuneytið um skýrslu vegna viðtals forsetans við þýskt tímarit. Jafnframt krafðist Björn Bjarnason að utanríkismálanefnd yrði upplýst hvað ráðuneytið hafi gert til að lægja öldur í Þýskalandi vegna gagnrýni á Ísland í kjölfar viðtalsins. Ummæli Davíðs Oddsonar í kastljósi þar sem hann sagði að íslenska ríkið myndi ekki greiða skuldir „óreiðumanna", eru þegar orðin heimsfræg og álitin hafa skaðað verulega möguleika Íslands til að rétta úr kútnum til langs tíma. Ef Björn Bjarnson er samkvæmur sjálfum sér ætti hann líka að biðja utanríkisráðuneytið um skýrslu vegna ummæla Davíðs og að það upplýsti líka utanríkismálanefnd og almenning hvað hefði verið gert til að lægja öldurnar vegna þeirra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband